Ferill 913. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1358  —  913. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um brottfall ýmissa laga á sviði fjármálamarkaðar (úrelt lög).

Frá fjármála- og efnahagsráðherra.



1. gr.

    Eftirtalin lög eru felld úr gildi:
     1.      Lög um Skuldaskilasjóð vélbátaeigenda, nr. 99/1935, og lög um viðauka við lög nr. 99 3. maí 1935, um Skuldaskilasjóð vélbátaeigenda, nr. 22/1939.
     2.      Lög um viðauka við lög nr. 115 7. nóvember 1941, um Búnaðarbanka Íslands, nr. 31/1954.
     3.      Lög um Fjárfestingarfélag Íslands hf., nr. 46/1970.
     4.      Lög um sameiningu Lífeyrissjóðs barnakennara og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, nr. 93/1980.
     5.      Lög um heimild til að fresta greiðslum vegna verðtryggðra íbúðalána, nr. 81/1983.
     6.      Lög um heimild til niðurfellingar eða endurgreiðslu stimpilgjalda af íbúðalánum, nr. 20/1984.
     7.      Lög um nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf., nr. 119/1985.
     8.      Lög um yfirtöku ríkisviðskiptabanka á eignum og skuldum Söfnunarsjóðs Íslands, nr. 31/1986.
     9.      Lög um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands, nr. 7/1987.
     10.      Lög um að leggja niður Lífeyrissjóð ljósmæðra, nr. 18/1992.
     11.      Lög um stofnun hlutafélags um Íslenska endurtryggingu, nr. 45/1993.
     12.      Lög um afnám laga nr. 70 1. júlí 1985, um Framkvæmdasjóð Íslands, með síðari breytingum, nr. 146/1998.
     13.      Lög um heimild til fjárhagslegrar fyrirgreiðslu úr ríkissjóði í tengslum við málshöfðun fyrir erlendum dómstólum vegna íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana erlendra stjórnvalda á tímabilinu 1. október til 1. desember 2008, nr. 172/2008.
     14.      Lög um stofnun opinbers hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja, nr. 75/2009.
     15.      Lög um heimild til að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf., nr. 138/2009.
     16.      Lög um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, nr. 35/2014.
     17.      Lög um stöðugleikaskatt, nr. 60/2015.
     18.      Lög um brottfall laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga og niðurlagningu Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands, nr. 35/2017.
     19.      Lög um brottfall laga um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999, með síðari breytingum, nr. 42/2018.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið var samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Með því er lagt til að felldir verði brott nítján lagabálkar á sviði fjármálamarkaðar sem eru úreltir eða hafa lokið hlutverki sínu.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Frumvarpinu er ætlað að fella brott lög á sviði fjármálamarkaðar sem ekki hafa lengur þýðingu. Úrelt lagaákvæði sem gegna ekki lengur tilætluðu hlutverki tilheyra réttarsögunni og geta valdið óvissu í lagaframkvæmd. Viðkomandi lagabálkar eiga ekki lengur við, ýmist sökum breyttra aðstæðna, vegna þess að hlutverk þeirra var afmarkað í tíma eða sökum þess að fyrirhugaðar ráðstafanir komu ekki til framkvæmda. Að óbreyttu standa þeir áfram í lagasafninu að þarflausu.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Lagt er til að felldir verði brott 19 lagabálkar á sviði fjármálamarkaðar. Lögin eru í köflum lagasafnsins um verðlagsmál og efnahagsráðstafanir (kafli 11.e), ríkisábyrgðir (kafli 11.f), einstakar tegundir skatta og gjalda (kafli 13.b), lífeyris- og eftirlaunaréttindi (kafli 25.c), Seðlabanka, fjármálafyrirtæki og verðbréfaviðskipti (kafli 29.a), ýmsar lánastofnanir (kafli 29.b), húsnæðislán (kafli 36.e), útgerð (kafli 37.d.2) og félög með takmarkaðri ábyrgð (kafli 45.b).

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið var ekki talið kalla á skoðun á samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

5. Samráð.
    Áformin varða ekki tiltekna hagsmunaaðila umfram aðra. Almenningur hefur hagsmuni af því að úreltum lögum sé ekki haldið í lagasafni.
    Drög að áformaskjali og frummati á áhrifum voru send öðrum ráðuneytum til umsagnar 27. júní 2023. Engar athugasemdir bárust. Áform um lagasetningu og frummat á áhrifum voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 23. október 2023 (mál nr. S-203/2023). Engar umsagnir bárust. Ráðuneytinu bárust aftur á móti ábendingar frá Ríkisábyrgðasjóði um að varkárara gæti verið að halda í gildi lögum sem heimiluðu stjórnvöldum að veita ábyrgðir í þágu alþjóðlegra stofnana. Þá væri í lögum um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, nr. 50/1997, mælt fyrir um ríkisábyrgð sem gæti enn haft þýðingu. Með tilliti til ábendinganna er í frumvarpinu hvorki gert ráð fyrir brottfalli lagabálka í kafla 29. c í lagasafninu um alþjóðlegar lána- og fjármálastofnanir né laga um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.
    Drög að frumvarpi og endanlegt mat á áhrifum voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 7. mars 2024 (mál nr. S-73/2024). Umsögn barst frá Ljósmæðrafélagi Íslands þess efnis að félagið gerði engar athugasemdir. Umsögnin var ekki talin kalla á breytingar á frumvarpsdrögunum.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið hefur ekki efnislega þýðingu. Það er ekki talið hafa önnur áhrif en að gera lagasafnið aðgengilegra og fyrirbyggja óvissu um gildandi rétt.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að eftirtalin lög falli brott:
     1.      Lög um Skuldaskilasjóð vélbátaeigenda, nr. 99/1935 og lög um viðauka við lög nr. 99 3. maí 1935, um Skuldaskilasjóð vélbátaeigenda, nr. 22/1939: Lögin kváðu á um stofnun Skuldaskilasjóðs vélbátaeigenda með ábyrgð ríkisins í sambandi við Fiskveiðasjóð Íslands. Sjóðurinn skyldi veita eigendum vélbáta hagstæð lán til að ná samningum um eftirgjöf skulda og breytingar á lánskjörum. Fiskveiðasjóður Íslands rann ásamt öðrum sjóðum inn í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins samkvæmt samnefndum lögum nr. 60/1997 og 61/1997.
     2.      Lög um viðauka við lög nr. 115 7. nóvember 1941, um Búnaðarbanka Íslands, nr. 31/1954: Lögin höfðu að geyma ákvæði um veðdeild Búnaðarbanka Íslands. Lög um Búnaðarbanka Íslands, nr. 115/1941, eru nú brott fallin og bankinn er ekki lengur starfandi.
     3.      Lög um Fjárfestingarfélag Íslands hf., nr. 46/1970: Lögin heimiluðu stofnun hlutafélags sem var ætlað að efla íslenskan atvinnurekstur og örva þátttöku í honum með því að fjárfesta í atvinnufyrirtækjum og veita þeim fjárhagslega fyrirgreiðslu og beita sér fyrir nýjungum í atvinnumálum. Fjárfestingarfélag Íslands hf. var stofnað á grundvelli laganna. Félagið var sameinað Féfangi hf. 1994. Féfang hf. var sameinað Íslandsbanka hf. 1995. Fjárfestingarfélag Íslands hf. er því ekki lengur til.
     4.      Lög um sameiningu Lífeyrissjóðs barnakennara og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, nr. 93/1980: Lögin kváðu á um að Lífeyrissjóður barnakennara skyldi sameinaður Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Sameiningin kom til framkvæmdar árið 1980.
     5.      Lög um heimild til að fresta greiðslum vegna verðtryggðra íbúðalána, nr. 81/1983: Lögin heimiluðu ríkisstjórninni að ákveða að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar og Seðlabanka Íslands að fresta skyldi greiðslu á allt að 25% af samanlagðri fjárhæð afborgana, verðtryggingaþátta og vaxta verðtryggðra lána Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna og verðtryggðra íbúðalána banka og annarra lánastofnana, ef lántaki óskaði. Lögin tóku mið af aðstæðum 1983 og hafa lokið hlutverki sínu.
     6.      Lög um heimild til niðurfellingar eða endurgreiðslu stimpilgjalda af íbúðalánum, nr. 20/1984: Lögin heimiluðu fjármálaráðherra að fella niður eða endurgreiða stimpilgjald af skuldbreytingarlánum húsbyggjenda og íbúðakaupenda sem lánastofnanir kynnu að veita í samræmi við samkomulag þeirra við ríkisstjórnina og stjórnarsáttmála hennar frá 27. maí 1983. Lögin hafa lokið hlutverki sínu.
     7.      Lög um nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf., nr. 119/1985: Lögin kváðu á um skipun nefndar til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf. Nefndin skilaði ráðherra skýrslu sinni í nóvember 1986 og lauk þar með störfum sínum.
     8.      Lög um yfirtöku ríkisviðskiptabanka á eignum og skuldum Söfnunarsjóðs Íslands, nr. 31/1986: Söfnunarsjóði Íslands var komið á fót með samnefndum lögum nr. 2/1888 undir lok 19. aldar. Hann starfaði á ábyrgð landssjóðs og var ætlað að taka við innlánum og veita lán gegn veði í fasteignum. Samkvæmt lögum nr. 31/1986 skyldi Söfnunarsjóði Íslands slitið og eignir hans og skuldir færðar til ríkisviðskiptabanka. Sjóðnum var í kjölfarið slitið og hann var afskráður 1989.
     9.      Lög um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands, nr. 7/1987: Samkvæmt lögunum skyldi Útvegsbanka Íslands breytt úr ríkisviðskiptabanka í hlutafélag. Það gekk í gegn 1987. Útvegsbanki Íslands hf. sameinaðist þremur öðrum bönkum undir nafni Íslandsbanka hf. 1990. Útvegsbanki Íslands hf. var afskráður í kjölfarið sama ár.
     10.      Lög um að leggja niður Lífeyrissjóð ljósmæðra, nr. 18/1992: Lögin kváðu á um brottfall laga um Lífeyrissjóð ljósmæðra, nr. 86/1938, og um að allar skuldbindingar sem á lífeyrissjóðnum hvíldu féllu á ríkissjóð. Þær ráðstafanir eru komnar til framkvæmdar. Brottfall laganna hnikar ekki yfirfærslu skuldbindinga lífeyrissjóðsins til ríkissjóðs.
     11.      Lög um stofnun hlutafélags um Íslenska endurtryggingu, nr. 45/1993: Lögin kváðu á um stofnun hlutafélags til að taka við starfsemi Íslenskrar endurtryggingar í því skyni að greiða fyrir sölu á hlut ríkisins í rekstrinum. Það gekk í gegn 1993 og var hlutur ríkisins seldur einkaaðilum. Lögin hafa því lokið hlutverki sínu.
     12.      Lög um afnám laga nr. 70 1. júlí 1985, um Framkvæmdasjóð Íslands, með síðari breytingum, nr. 146/1998: Lögin felldu brott lög um Framkvæmdasjóð Íslands, nr. 70/1985, og kváðu á um að ríkissjóður tæki yfir eignir og skuldir framkvæmdasjóðsins. Framkvæmdasjóður Íslands var sjóður í eigu og á ábyrgð ríkisins. Hlutverk hans var að hafa milligöngu um lántökur fyrir fjárfestingarlánasjóði og aðra sambærilega aðila. Brottfall laga nr. 146/1998 hnikar ekki yfirfærslu eigna og skuldbindinga framkvæmdasjóðsins til ríkissjóðs sem er þegar gengin í gegn.
     13.      Lög um heimild til fjárhagslegrar fyrirgreiðslu úr ríkissjóði í tengslum við málshöfðun fyrir erlendum dómstólum vegna íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana erlendra stjórnvalda á tímabilinu 1. október til 1. desember 2008, nr. 172/2008: Lögunum var ætlað að gera ríkinu kleift að veita fjárhagslega fyrirgreiðslu til að standa undir kostnaði við málshöfðun fyrir erlendum dómstólum vegna ákvarðana breskra stjórnvalda frá október 2008 sem vörðuðu Landsbanka Íslands hf. og Kaupþing banka hf. Fjármálaráðherra skrifaði undir samning við Kaupþing banka hf. um stuðning við slíka málshöfðun í apríl 2009 og með fjáraukalögum fyrir árið 2009, nr. 150/2009, var samþykkt 120 millj. kr. fjárveiting vegna þessa. Ekki varð þó úr málshöfðun á grundvelli laganna.
     14.      Lög um stofnun opinbers hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja, nr. 75/2009: Lögin kváðu á um stofnun opinbers hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja. Ekki kom til stofnunar hlutafélags á grundvelli laganna.
     15.      Lög um heimild til að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf., nr. 138/2009: Lögin heimiluðu ráðherra að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf. við skilanefndir Glitnis banka hf., Kaupþings banka hf. og Landsbanka Íslands hf. í tengslum við samninga sem gerðir höfðu verið um uppgjör vegna yfirtekinna eigna og skulda í kjölfar ákvarðana Fjármálaeftirlitsins frá október 2008 á grundvelli laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, nr. 125/2008. Uppgjörum við Glitni banka hf., Kaupþing banka hf. og Landsbanka Íslands hf. er nú lokið og skilanefndir þeirra hafa látið af störfum.
     16.      Lög um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, nr. 35/2014: Lögin kváðu á um ráðstafanir til að lækka verðtryggð fasteignalán einstaklinga. Umsóknartímabil var til 1. september 2014 og var ráðstöfununum lokið í kjölfarið. Lögin hafa því lokið hlutverki sínu.
     17.      Lög um stöðugleikaskatt, nr. 60/2015: Lögin kváðu á um álagningu skatts 15. apríl 2016 á lögaðila sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir og voru í slitameðferð eða höfðu lokið slitameðferð af tilgreindum ástæðum. Aðilar sem luku slitameðferð með staðfestum nauðasamningi fyrir 15. mars 2016 voru þó undanþegnir skattlagningunni. Viðkomandi lögaðilar luku slitameðferð með staðfestum nauðasamningi fyrir 15. mars 2016 og greiddu því ekki skattinn.
     18.      Lög um brottfall laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga og niðurlagningu Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands, nr. 35/2017: Lögin kváðu annars vegar á um að lög um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, nr. 2/1997, skyldu felld brott og sjóðurinn sameinaður B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Hins vegar var mælt fyrir um að Eftirlaunasjóður starfsmanna Útvegsbanka Íslands skyldi lagður niður og að ríkissjóður greiddi réttindi samkvæmt samþykktum sjóðsins. Þær ráðstafanir eru komnar til framkvæmdar. Brottfall laganna hnikar ekki ráðstöfununum.
     19.      Lög um brottfall laga um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999, með síðari breytingum, nr. 42/2018: Lögin felldu brott lög um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999, og kváðu á um að frá 1. desember 2018 skyldi hann starfa á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og samþykkta er fyrir sjóðinn giltu. Stjórn sjóðsins skyldi eigi síðar en 1. október 2018 aðlaga samþykktir sjóðsins ákvæðum laga nr. 129/1997. Kveðið var á um að útgjöld vegna lífeyrisgreiðslna sem féllu á sjóðinn vegna áunninna réttinda sjóðfélaga sem fæddir væru 1914 eða fyrr eða maka þeirra skyldu greidd úr ríkissjóði. Ráðstafanir samkvæmt lögunum eru þegar gengnar í gegn. Brottfall laganna hnikar ekki yfirfærslu skuldbindinga til ríkissjóðs.

Um 2. gr.

    Lagasetningin er ekki talin kalla á undirbúning, aðlögun eða sérstaka innleiðingu aðra en birtingu og brottfall viðkomandi laga úr lagasafninu. Því er lagt til að lögin öðlist þegar gildi.